Tottenham ekki í miklum vandræðum með botnliðið

Harry Kane skoraði annað mark Tottenham.
Harry Kane skoraði annað mark Tottenham. AFP

Tottenham vann í dag öruggan 3:1-sigur á botnliði Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Komust lærisveinar José Mourinho því aftur á sigurbraut eftir jafntefli við Fulham í síðasta leik. 

Serge Aurier kom Tottenham yfir strax á fimmtu mínútu og Harry Kane tvöfaldaði forskotið fimm mínútum fyrir hálfleik og var staðan í leikhléi 2:0. 

Sheffield United komst aftur inn í leikinn þegar David McGoldrick minnkaði muninn á 59. mínútu.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Tanguy Mdombélé hins vegar stórkostlegt mark og tryggði Tottenham sigurinn. 

Tottenham er í 4. sæti með 33 stig, þremur stigum frá toppliði Manchester United sem á leik til góða. Sheffield United er sem fyrr á botninum með aðeins fimm stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert