Ákvarðanatökurnar eru rangar - ég á sökina

Jürgen Klopp og Alisson markvörður Liverpool eftir leikinn í kvöld.
Jürgen Klopp og Alisson markvörður Liverpool eftir leikinn í kvöld. AFP

„Við áttum ekki að geta tapað þessum leik en við gerðum það og það er mér að kenna,“ sagði Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool eftir  tapið óvænta gegn Burnley, 0:1, í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Liverpool tapaði þar með í fyrsta sinn í 69 leikjum á heimavelli í deildinni frá því í apríl 2017 og er nú sex stigum á eftir toppliði Manchester United í baráttunni um enska meistaratitilinn, í fjórða sætinu.

„Það er mitt hlutverk að sjá um að strákarnir séu með réttu tilfinninguna og sjálfstraustið í lagi. Það var ekki til staðar í kvöld. Við vorum mikið með boltann og sköpuðum okkur ágætist stöður en ákvarðanatökur á úrslitastundum voru rangar. Þetta er það sama og ég sagði í síðustu viku. Þegar eitthvað gengur ekki upp verður þú að reyna enn meira og lengur og taka betri ákvarðanir. Það gekk ekki upp í kvöld," sagði Klopp við Sky Sports.

„Það er erfitt að spila gegn liðum sem verjast svona aftarlega. Þá er mikilvægt að skora á undan en það gerðum við ekki. Þá breytist andstæðingurinn. Þegar liðinu hefur ekki tekist að skora í langan tíma þá eru ekki allir með sjálfstraustið í lagi.

Ég hef aldrei séð okkur sem lið sem skorar mörk að vild. Ég vissi að við yrðum að hafa virkilega fyrir hlutunum. Þetta er ekki í fyrsta og ekki í síðasta sinn sem svona lagað gerist í fótbolta. Við getum bara notað þennan leik til að undirbúa okkur fyrir þann næsta. Það er ekki eins og leikmennirnir hafi ekki getuna. Það er ákvarðanatakan sem er vandamálið. Ef við skorum á réttu augnablikunum breytist allt en það gerðum við ekki," sagði Jürgen Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert