Eitt af því sem við ræddum í upphafi tímabils

Ole Gunnar Solskjær fylgist með sínum mönnum á hliðarlínunni í …
Ole Gunnar Solskjær fylgist með sínum mönnum á hliðarlínunni í gær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var afar sáttur við hugarfar sinna manna eftir 2:1-sigur liðsins gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í London í gær.

Ademola Lookman kom Fulham yfir á snemma leiks en Edinson Cavani jafnaði metin fyrir United af stuttu færi út teignum um miðjan fyrri hálfleikinn.

Það var svo Paul Pogba sem skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik með frábæru skoti utan teigs.

„Við höfum gert virkilega vel í að vinna þessa jöfnu leiki á tímabilinu og 1:0-sigrarnir og 2:1-sigrarnir eru orðnir ansi margir,“ sagði Solskjær í samtali við Sky Sports eftir leik.

„Það var eitt af því sem við ræddum í upphafi tímabilsins, að við þurfum að breyta jafnteflum í sigurleiki og mér finnst við hafa tekist vel til með það.

Eins þá erum við orðnir andlega sterkari en á síðustu leiktíð og þá erum við að spila mun fastar en við gerðum og hugarfarið innan liðsins er allt annað.“

Þá hrósaði norski stjórinn Paul Pogba sem hefur verið frábær í síðustu leikjum United.

„Ég er mjög sáttur með frammistöðu Pogba. Hann hefur verið að stíga upp í undanförnum leikjum fyrir okkur.

Það er langt síðan maður hefur séð hann svona einbeittan og í jafn góðu formi. Hann nýtur þess að spila fótbolta á nýjan leik og honum líður vel,“ bætti Solskjær við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert