Ekki mitt starf að eyða peningum

Jürgen Klopp og Liverpool eru án sigurs í síðustu fimm …
Jürgen Klopp og Liverpool eru án sigurs í síðustu fimm deildarleikjum sínum. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Liverpool, gaf það sterklega til kynna eftir tap liðsins gegn Burnley í gær að hann vildi styrkja leikmannahóp sinn áður en félagaskiptaglugganum verður lokað um mánaðamótin.

Þetta var fyrsta tap Liverpool á heimavelli síðan í apríl 2017 en liðið er nú án sigurs í síðustu fimm deildarleikjum sínum og þá hefur liðið ekki skorað mark í þeim heldur.

Varnarleikur liðsins virkaði brothættur á köflum í gær en það er sóknarleikur liðsins sem virðist vera valda stjóranum mestu áhyggjum um þessar mundir, þrátt fyrir meiðlsi lykilmanna á borð við Virgil van Dijk og Joe Gomez.

„Það er ekki ég sem tek ákvarðanir um það hver og hvort það verði keyptir leikmenn,“ sagði Klopp í samtali við Sky Sports eftir leikinn.

„Þannig hefur það alltaf verið og það ætti ekki að koma neinum á óvart. Ég ræði félagskipti og leikmenn sem við höfum áhuga á á hverjum einasta degi.

Ég segi hvar við getum bætt liðið og mæli með ákveðnum leikmönnum en það er ekki mitt starf að eyða peningum og kaupa leikmenn.

Það er ekki ég sem tek ákvarðanir um það hvort við getum keypt leikmenn eða ekki og þannig hefur það allaf verið,“ bætti þýski knattspyrnustjórinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert