Fyrirliði City tæpur fyrir stórleikinn á Anfield

Kevin De Bruyne haltrar af velli gegn Aston Villa í …
Kevin De Bruyne haltrar af velli gegn Aston Villa í vikunni. AFP

Kevin De Bruyne, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Mancehster City, fór meiddur af velli í 2:0-sigri City gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í Manchester á miðvikudaginn síðasta.

Óvíst er hversu lengi leikmaðurinn verður frá en hann hefur verið fyrirliði City á leiktíðinni og spilað afar vel í undanförnum leikjum liðsins.

Sky Sports greinir frá því að De Bruyne gæti verið frá næstu þrjár til fjórar vikurnar en City heimsækir Englandsmeistara Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar hinn 7. febrúar.

Það gæti vel farið svo að leikmaðurinn missi af leiknum, verði hann ekki búinn að ná sér góðum af meiðslunum.

City er á miklu skriði þessa dagana, hefur unnið síðustu sex deildarleiki sína í röð, og þá er liðið taplaust í síðustu tíu deildarleikjum sínum en liðið hefur unnið átta þeirra.

City er með 38 stig í öðru sæti deildarinnar og á leik til góða á topplið Manchester United sem er með 40 stig en Liverpool er í fjórða sæti deildarinnar með 34 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert