Líkti fjölmiðlamönnum við virka í athugasemdum

Frank Lampard og Chelsea eru í vandræðum þessa dagana.
Frank Lampard og Chelsea eru í vandræðum þessa dagana. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, var ekki vel upp lagður á blaðamannafundi liðsins í dag.

Chelsea mætir Luton Town í 4. umferð ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn og Lampard sat fyrir svörum á fjölmiðlafundi í morgun en mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð stjórans að undanförnu.

Gengi Chelsea hefur ekki verið gott í síðustu leikjum og hefur liðið einungis unnið tvo af síðustu átta deildarleikjum sínum.

„Ég held að sjálfstraust leikmannanna væri í molum ef þeir myndu lesa sumt af því sem þið hafið verið að skrifa undanfarnar vikur,“ sagði Lampard á fundi dagsins.

„Ég hef aðeins verið að skoða það sem hefur verið skrifað um félagið og leik liðsins og það er stundum eins og „virkir í athugasemdum“ séu að fjalla um leikina okkar og reyna vekja upp neikvæð viðbrögð.

Ég las líka uppgjörin og greinarnar þegar að við vorum að spila vel og þá var eins og menn væru meira að vanda til verka. 

Það væri ágætis byrjun ef að fjölmiðlamenn myndu reyna að vera málefnalegir svona einu sinni,“ bætti Lampard pirraður við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert