Flest eftir bókinni í bikarnum

Pablo Fornals og félagar í West Ham United eru komnir …
Pablo Fornals og félagar í West Ham United eru komnir áfram í ensku bikarkeppninni. AFP

Sex leikjum var að ljúka í fjórðu umferð ensku bikarkeppninni í knattspyrnu rétt í þessu. Flestir leikirnir fóru eins og við mátti búast fyrir fram en Norwich, topplið ensku B-deildarinnar, var þó slegið út af Barnsley, sem siglir lygnan sjó í sömu deild.

Þrjú ensk úrvalsdeildarfélög; West Ham United, Brighton & Hove Albion og Sheffield United eru öll komin áfram eftir heimasigra.

West Ham vann öruggan 4:0 sigur gegn C-deildar liði Doncaster Rovers. Pablo Fornals og Andriy Yarmolenko komu West Ham í 2:0 í fyrri hálfleik. Snemma í síðari hálfleik varð miðvörður Doncaster, Andrew Butler,  fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Oladapo Afolayan batt svo endahnútinn á leikinn þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í sínum fyrsta leik.

Brighton lenti í talsverðum vandræðum með C-deildar lið Blackpool. Eftir að Yves Bissouma hafði komið Brighton yfir jafnaði Gary Madine metin rétt fyrir hálfleik. Snemma í síðari hálfleik kom Steven Alzate þó Brighton yfir að nýju og þar við sat. Daníel Leó Grétarsson var ekki í leikmannahóp Blackpool vegna meiðsla.

Sheffield United, sem hefur gengið bölvanlega í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, vann kærkominn sigur gegn C-deildar liði Plymouth Argyle. Eftir að Sheffield hafði komust í 2:0 eftir mörk frá Chris Basham og Billy Sharp sitt hvoru megin við hálfleikinn minnkaði Panutche Camara muninn fyrir Plymouth þegar stundarfjórðungur var eftir en lengra komst liðið ekki.

Bristol City vann öruggan 3:0 sigur á útivelli gegn Millwall í slag tveggja B-deildar liða. Sjö sæti og sjö stig aðskilja liðin í B-deildinni þar sem Bristol er í 9. sæti og Millwall í því 16 en Bristol  öllu sterkari aðilinn í dag. Mörk Bristol skoruðu þeir Famara Diedhiou, Nahki Wells og Antoine Semenyo. Jón Daði Böðvarsson sat allan tímann á varamannabekk Millwall.

Óvæntustu úrslit dagsins í keppninni komu í öðrum slag B-deildar liða. Þar tók Barnsley, sem situr í 11. sæti deildarinnar, á móti toppliði Norwich. Enduðu leikar 1:0, Barnsley í vil, þar sem Callum Styles skoraði eina markið snemma í síðari hálfleik.

Í þriðja slag B-deildar liða í keppninni vann Swansea City, sem er í öðru sæti deildarinnar, stórsigur gegn Nottingham Forest, sem er í fallbaráttu í deildinni. Swansea vann leikinn 5:1 og skoruðu Matt Grimes og Liam Cullen báðir tvennu fyrir velska liðið, auk þess sem Oliver Cooper komst á blað. Mark Nottingham Forest skoraði Anthony Knockaert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert