Kostar 3,5 milljónir að mæta of seint á æfingu

Frank Lampard hefur yfirgefið Stamford Bridge.
Frank Lampard hefur yfirgefið Stamford Bridge. AFP

Þótt leikmenn stærstu knattspyrnufélaga Englands séu með há laun er ólíklegt að það hafi oft gerst í tíð Franks Lampards sem knattspyrnustjóra Chelsea að leikmenn hafi mætt of seint á æfingar liðsins.

Vefmiðillinn Teamtalk hefur birt mynd af reglum Chelsea um sektir leikmanna, undirritaðar af Lampard, og þar er sundurliðað hversu mikið þeir þurfa að greiða í sektarsjóðinn fyrir hinar ýmsu yfirsjónir.

Þar ber hæst sektina fyrir að vera of seinn á æfingu en hún nemur samkvæmt þessu 20 þúsund pundum, sem eru hvorki meira né minna en þrjár og hálf milljón íslenskra króna.

Sektirnar eru sundurliðaðar sem hér segir:

1: Of seinn í brottför liðs á leikdegi – 2,500 pund

2: Of seinn á staðinn fyrir æfingu  2.500 pund (+ 2.500 fyrir hverjar 15 mínútur)

3: Of seinn í upphitun í líkamsræktinni  1.000 pund

4: Of seinn í meðferð  2.500 pund

5: Of seinn á liðsfund  500 pund á mínútu

6: Of seinn á æfingu  20.000 pund

7: Síminn hringir við borðhald liðsins eða á fundi  1.000 pund

8: Mætir rangt klæddur í ferðalag og á leikdegi  1.000 pund

9: Ferðast ekki með liðinu til baka frá leikstað, án þess að ræða það með 48 stunda fyrirvara við knattspyrnustjórann eða aðstoðarstjórann  5.000 pund

10: Neitar að mæta eða skrópar í skylduverkefni innan félags eða samfélags  5.000 pund

11: Segir ekki frá veikindum eða meiðslum fyrir frídag, eða 90 mínútum fyrir æfingu  10 þúsund pund

12: Of seinn á fund læknis  2.500 pund.

Og síðan er tekið fram að allar sektir eigi að greiða innan 14 daga, en eftir þann tíma tvöfaldist upphæðin.

Frank Lampard var sagt upp störfum í gær og því bíða leikmenn liðsins væntanlega spenntir eftir því að sjá hvaða áherslur arftaki hans, líklega Thomas Tuchel, verði með í sektargreiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert