Áskorun að ná fjórða sætinu

Jürgen Klopp hughreystir Jordan Henderson eftir að fyrirliðinn fór meiddur …
Jürgen Klopp hughreystir Jordan Henderson eftir að fyrirliðinn fór meiddur af velli um síðustu helgi. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að eins og staðan er núna sé það áskorun fyrir sitt lið að ná fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.

Liverpool er dottið niður í sjötta sætið eftir slæman kafla frá áramótum og ljóst að liðið þarf að rétta sig verulega af til að ná að komast áfram í Meistaradeildina.

„Þetta er stór áskorun fyrir okkur. Það er nóg að líta á stigatöfluna. Við erum skammt undan en en erum samt dálítið á eftir. Við verðum að vinna eins marga leiki og mögulegt er og við sjáum til hvernig þetta fer í lokin," sagði Klopp á fréttamannafundi í dag en lið hans sækir botnlið Sheffield United heim á sunnudagskvöldið.

Þá sagði Klopp á fundinum að hann gerði sér vonir um að fyrirliðinn Jordan Henderson næði að spila síðustu leik tímabilsins en eins og fram kom fyrr í dag hefur hann gengist undir aðgerð vegna nárameiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert