Evrópumeistararnir tryggja sér lítt þekktan enskan bakvörð

Bayern München er með stjörnum prýtt lið en vill nú …
Bayern München er með stjörnum prýtt lið en vill nú fá lítt þekktan enskan bakvörð í sínar raðir. AFP

Þótt enski knattspyrnumaðurinn Omar Richards hafi aldrei leikið úrvalsdeildarleik í heimalandi sínu er hann að öllu óbreyttu á leið til Evrópumeistaranna í Bayern München í sumar.

Sky Sports segir að Bayern hafi haft augastað á þessum 23 ára gamla vinstri bakverði um nokkurt skeið og nú sé frágengið að hann komi til þýska stórveldisins í sumar þegar samningur hans við Reading rennur út.

Richards leikur nú sitt fjórða tímabil með Reading í B-deildinni og hefur spilað 72 deildaleiki með liðinu. Hann hefur verið í röðum félagsins frá 15 ára aldri. Richards lék ekkert með yngri landsliðum Englands þar til hann spilaði sinn fyrsta og eina leik til þessa með 21-árs landsliðinu gegn Slóveníu í október. 

Nokkrir ungir Englendingar hafa gert það gott með þýskum liðum á undanförnum árum og þarna virðist einn vera að bætast í hópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert