Fréttir frá Barcelona trufla mig ekkert

Mikel Arteta tók við liði Arsenal í desember 2019.
Mikel Arteta tók við liði Arsenal í desember 2019. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal segir fréttir um að Barcelona vilji fá hann í sínar raðir trufli hann ekkert og hann sé með fulla einbeitingu í sínu starfi.

Útvarpsstöð í Katalóníu skýrði frá því að Joan Laporta, sem er í framboði í kjöri forseta Barcelona, vilji að Arteta taki við liði Barcelona af núverandi stjóra, Ronald Koeman.

Arteta ólst upp hjá Barcelona en fór frá félaginu árið 2002 án þess að hafa fengið tækifæri með aðalliðinu.

„Svona vangaveltur koma alltaf upp þegar forsetakosningar eru á dagskrá hjá Barcelona. Þetta er stórt félag, ég ólst þar upp og tengingin er því alltaf til staðar. En ég er með fulla einbeitingu á mínu starfi hjá Arsenal, hef nóg að gera og nýt þess. Það eru forréttindi að stjórna þessu fótboltaliði og ég er afar ánæðgur,“ sagði Arteta við Sky Sports.

Spurður hvort hann gæti einhvern tíma tekið við liði Barcelona svaraði Spánverjinn bara: „Ég er knattspyrnustjóri Arsenal í dag og verð það líka á morgun. Ég nýt þess og vil ná betri árangri en við höfum gert til þessa.“

Arteta á tvö ár eftir af samningi sínum við Arsenal og sagði ekki forgangsverkefni á miðju tímabili að velta fyrir sér mögulegum viðræðum um framlengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert