Liverpool endurheimtir þríeyki

Alisson er einn þeirra sem snýr aftur.
Alisson er einn þeirra sem snýr aftur. AFP

Brasilíumennirnir Alisson og Fabinho ásamt Portúgalanum Diogo Jota munu allir snúa aftur í leikmannahóp Liverpool þegar liðið fær Chelsea í heimsókn í stórslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu annað kvöld.

Alisson var ekki með í 2:0 sigri liðsins gegn Sheffield United um liðna helgi vegna sviplegs fráfalls föður hans í síðustu viku en mun snúa aftur í liðið á morgun.

Fabinho hefur verið að glíma við vöðvameiðsli sem hafa haldið honum frá keppni í tæpan mánuð. Hann hefur hins vegar æft eðlilega með liðinu að undanförnu og ætti því að vera klár í slaginn.

Jota ferðaðist með liðinu þegar það heimsótti Sheffield um helgina en varð skyndilega veikur og var því utan hóps í leiknum gegn Sheffield Utd. Eftir að hafa verið frá vegna hnémeiðsla í þrjá mánuði var hann búinn að æfa með liðinu og orðinn leikfær gegn Sheffield Utd.

Búist er við því að Jota verði búinn að jafna sig af veikindunum og geti því tekið þátt í leiknum annað kvöld. Jota hafði farið afar vel af stað með Liverpool áður en hann meiddist og var búinn að skora níu mörk í 17 leikjum í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert