„Yfir vetrartímann er þetta helvíti líkast“

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að ótrúleg 21 leiks sigurganga liðsins í öllum keppnum sé enn merkilegri fyrir þær sakir að árangurinn hafi náðst yfir vetrartímann á Englandi, sem sé helvíti líkastur.

„Yfir vetrartímann á Englandi er þetta helvíti líkast og á þeim tíma höfum við náð að gera nokkuð sem verður að teljast ótrúlegt. Þetta er í raun meira en stórkostlegt,“ sagði Guardiola í samtali við BBC Radio 5 í gærkvöldi eftir 4:1 sigur City gegn Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni.

Leikjaálag yfir vetrartímann er vel þekkt í ensku úrvalsdeildinni og ekki minnkaði það þennan veturinn vegna þéttrar leikjadagskrár í kjölfarið af kórónuveirufaraldrinum. Þá fóru Bretlandseyjar ekki varhluta af lágu hitastigi þótt nú sé farið að vora.

„Leikmennirnir fá allt mitt hrós en Liverpool eru enn þá meistararnir. Til þess að vinna úrvalsdeildina þurfum við á öllum þessum stigum að halda,“ bætti Guardiola við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert