Enskir úrvalsdeildarleikmenn til liðs við Jamaíku?

Búist er við því að Michail Antonio skipti um ríkisfang …
Búist er við því að Michail Antonio skipti um ríkisfang á næstunni. AFP

Jamaíska landsliðið í knattspyrnu karla gæti á næstu mánuðum fengið mikla andlitslyftingu, en forseti knattspyrnusambandsins þar í landi segir að nú sé unnið hörðum höndum að því að fá fjölda enskra leikmanna til þess að skipta um ríkisfang með það fyrir augum að komast á HM 2022 í Katar.

Nokkrir úrvalsdeildarleikmenn eru á meðal þeirra sem nefndir hafa verið í þessu samhengi, þeir Michail Antonio hjá West Ham United, Nathan Redmond hjá Southampton, Mason Holgate hjá Everton og Isaac Hayden hjá Newcastle United.

Auk þeirra vill Michael Ricketts, forseti jamaíska knattspyrnusambandsins, fá Demarai Gray, leikmann Bayer Leverkusen í Þýskalandi, Íslandsvininn Kemar Roofe hjá Rangers í Skotlandi, Ivan Toney hjá Brentford, sem er markahæstur í ensku B-deildinni, Andre Gray hjá Watford og Max Aarons hjá Norwich City, sem hefur meðal annars verið orðaður við stórlið Barcelona, til þess að skipta um ríkisfang.

Í frétt Daily Mail um málið er greint frá því að þrír þessara leikmanna muni ekki koma til með að verða við beiðni jamaíska knattspyrnusambandsins um að spila með landsliðinu, að minnsta kosti að sinni, þar sem þeir eygi enn von um að spila fyrir enska landsliðið. Þetta eru þeir Demarai Gray, Toney og Aarons.

Liam Moore, varnarmaður Reading, er nú þegar kominn með jamaískt vegabréf og búist er við því að Antonio fái sitt vegabréf í hendurnar á næstunni. Sömu sögu er að segja af Roofe, sem lék með Víkingi Reykjavík hluta sumars 2011, ásamt Ethan Pinnock hjá Brentford, Rolando Aarons hjá Huddersfield Town, Amari'i Bell hjá Blackburn Rovers, Kasey Palmer hjá Bristol City og Curtis Tilt hjá Wigan Athletic.

„Ég sé fyrir mér að fá Andre Gray, Demarai Gray, Isaac Hayden, sem hafði raunar samband sjálfur við knattspyrnusambandið um að spila fyrir okkur, Mason Holgate, Liam Moore, sem er þegar kominn með vegabréfið sitt, Nathan Redmond, Kemar Roofe og Ivan Toney til þess að spila fyrir okkur. Allir þessir leikmenn eru í ferli með að fá jamaísk vegabréf,“ sagði Ricketts í vikunni.

Samkvæmt Daily Mail eru þó öll þessi nöfn sem Ricketts nefnir ekki alls kostar rétt. Talsmaður hjá jamaíska knattspyrnusambandinu sagði til að mynda að ekki væri búið að hafa samband við Redmond um að spila fyrir landsliðið.

Hayden er sagður vilja einbeita sér að fallbaráttu Newcastle að sinni en gæti þó skipt um ríkisfang síðar á árinu. Þá er búið að hafa samband við Everton vegna Holgate, þótt ekkert svar hafi enn borist þaðan. Sem áður segir vilja svo Demarai Gray og Toney ekki skuldbinda sig landsliði Jamaíku að sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert