Ekki vinir lengur þegar leikurinn hefst

Bruno Fernandes í leik gegn Chelsea á dögunum.
Bruno Fernandes í leik gegn Chelsea á dögunum. AFP

Bruno Fernandes, sóknartengiliður enska knattspyrnuliðsins Manchester United, segist vera góður vinur samlanda sinna, þeirra Bernardo Silva, Joao Cancelo og Rúben Dias, sem leika allir fyrir erkifjendur og nágranna United, Manchester City. Vinskapurinn fari þó beinustu leið út um gluggann þegar flautað verður til leiks í borgarslagnum í dag.

„Ég ræði reglulega við þá og við eigum í góðu sambandi. En þessi sambönd eru látin lönd og leið þegar leikurinn hefst. Þeir þekkja mig og þeir vita að á vellinum erum við ekki vinir lengur!“ sagði Fernandes og brosti í samtali við opinbera heimasíðu Man Utd.

Hann var þó uppfullur hróss í þeirra garð. „Á sama tíma nýt ég þess að sjá þá spila og þeir eru allir að standa sig vel þannig að ég samgleðst þeim.

Ég var að vonast eftir því að þeir sem lið myndu standa sig aðeins verr en þeir eru að gera, en ég samgleðst þeim sem einstaklingum vegna þess að þeir eru góðar manneskjur og þeir eiga það skilið að vera í þeirri stöðu sem þeir eru og að vera að spila eins vel og þeir eru að gera.“

Fernandes segist þess fullviss að leikurinn gegn Man City í dag verði erfiður en að Man Utd eigi þó möguleika á að ná í öll þrjú stigin.

„Við vitum að það er alltaf erfitt að spila gegn City, við verðum að gera allt vel, nánast fullkomlega að ég tel. Það er auðvelt að skilja hugmyndafræðina að baki því hvernig þeir spila en það er erfitt að spila gegn þeim.“

Stórslagur Man City og Man City byrjar klukkan 16.30. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport og hefst upphitun klukkan 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert