Þarf einhver að útskýra hvað vítaspyrna er í þessari deild

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var afar ósáttur við að lið hans hefði ekki fengið vítaspyrnu í 1:1 jafnteflinu gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Þegar staðan var orðin 1:1 skaut Nicolas Pépé, vængmaður Arsenal, að marki og fór boltinn augljóslega í handlegg Erik Pieters, bakvarðar Burnley, sem var með handlegginn langt út. VAR skoðaði atvikið en ákvað þó að dæma ekki vítaspyrnu.

„Ég tel að þetta hafi verið skýrt og augljóst. Ég held að það þurfi ekki að rökræða það neitt. Ef þetta er ekki vítaspyrna þá tel ég að einhver þurfi að útskýra hvað vítaspyrna sé eiginlega í þessari deild,“ sagði Arteta að leik loknum.

Hann sagði þó ýmislegt annað ekki hafa gengið upp hjá hans mönnum í leiknum.

„Sannleikurinn er sá að þegar maður kemur hingað á erfiðan útivöll sem er erfitt að spila á og skapar sér þann fjölda færa sem við gerðum, skorar ekki nægilega mikið, gefur andstæðingnum mark og fær svo ekki ákvarðanirnar sem maður á að fá, þá verður það alltaf erfitt að vinna leik í þessari deild,“ sagði Arteta einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert