Gattuso ekki á blaði hjá Tottenham

Gennaro Gattuso er ekki í viðræðum við Tottenham.
Gennaro Gattuso er ekki í viðræðum við Tottenham. AFP

Gennaro Gattuso, sem var nýverið látinn taka pokann sinn hjá ítalska knattspyrnufélaginu Fiorentina eftir aðeins 23 daga í starfi, er ekki á óskalista enska félagsins Tottenham Hotspur, sem leitar að nýjum knattspyrnustjóra.

Eftir að viðræður við Paulo Fonseca, fráfarandi þjálfara Roma, sigldu í strand fór að heyrast þrálátur orðrómur um að Tottenham hefði nú snúið sér að ítalska harðhausnum, en svo er ekki að því er BBC greinir frá.

Stjóraleit Tottenham hefur ekki gengið sem skyldi frá því að José Mourinho var rekinn fyrir tveimur mánuðum.

Antonio Conte, sem hætti á dögunum sem stjóri Ítalíumeistara Inter frá Mílanó, fór í viðræður við Tottenham en sleit þeim skömmu síðar eftir að honum þótti sem metnaður félagsins samræmdist ekki sínum eigin.

Þá reyndi félagið að fá Mauricio Pochettino til þess að snúa aftur, en hann tók við París Saint-Germain og er stjóri þar eftir að hafa verið rekinn frá Tottenham fyrir um einu og hálfu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert