Varar stuðningsmenn Liverpool við

Virgil van Dijk
Virgil van Dijk AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, hefur varað stuðningsmenn félagsins við því að það geti tekið Virgil van Dijk tíma að komast aftur í sitt besta stand.

Hollenski varnarmaðurinn sleit krossband snemma á síðustu leiktíð, eftir samstuð við Jordan Pickford markvörð Everton, og var frá keppni út tímabilið. Hann hefur því ekki leikið keppnisleik í níu mánuði.

Van Dijk lék í 20 mínútur í 3:4-tapi Liverpool gegn Herthu Berlín frá Þýskalandi í vikunni í sínum fyrsta leik eftir meiðslin.

„Við verðum að fara varlega. Við megum ekki búast við því að van Dijk komi til baka og Liverpool vinni deildina sjálfkrafa. Þetta voru alvarleg meiðsli og það er enginn heimsendir ef hann spilar ekki í 1. umferð í deildinni.

Þetta tekur sinn tíma og við verðum að vera þolinmóð. Það er mikilvægara að hann jafni sig hægt og vel og verði góður fyrir Liverpool næstu 5-6 árin,“ sagði Carragher við PA-fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert