„Þessi spurning er ekki til fyrir mér“

Thomas Tuchel og Pep Guardiola.
Thomas Tuchel og Pep Guardiola. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri enska félagsins Chelsea, segist engan áhuga hafa á því hvort hann eða Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, sé betri þjálfari.

Liðin mætast í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á morgun á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea. Á blaðamannafundi í dag var Tuchel spurður hvor þeirra væri betri þjálfari.

„Ég ber djúpa virðingu fyrir Pep. Þessi spurning er ekki til fyrir mér og ég get ekki svarað henni. Þetta er spurning fyrir ykkur sem þið getið rætt fram og til baka,“ svaraði Tuchel.

„Ég er mikill aðdáandi þess hversu mikil áhrif hann hefur haft frá fyrsta degi sínum sem atvinnu þjálfari. Áhrifin sem hann hefur haft hjá Barcelona, Bayern München og Manchester City. Hann á alla mina virðingu.

Það er engin ástæða til þess að spyrja sjálfan mig hvort ég sé betri þjálfari. Ég geri mitt besta. Ég er á stað þar sem ég er mjög hamingjusamur og er betri þjálfari í dag en ég var í gær,“ bætti hann við.

Chelsea hafði betur gegn Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili á meðan City vann Englandsmeistaratitilinn örugglega.

Því er óhætt að segja að um sannkallaðan risaslag sé að ræða á morgun. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport og hefst upphitun klukkan 11 og leikurinn sjálfur klukkan 11.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert