Styttist í fyrsta leikinn hjá Rashford

Marcus Rashford hefur ekki leikið með Manchester United síðan í …
Marcus Rashford hefur ekki leikið með Manchester United síðan í vor. AFP

Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, skýrði frá því í morgun að hann ætti að geta byrjað að æfa á ný með liðsfélögum sínum í næstu viku.

Rashford hefur ekki spilað leik síðan í júlí, eða frá því hann lék úrslitaleik Evrópukeppninnar með Englendingum gegn Ítölum á Wembley. Hann þurfti síðan að fara í aðgerð á öxl og hefur verið í endurhæfingu síðan.

Rashford skýrði frá því á Twitter í dag að hann ætti fyrir höndum fund með lækni sínum á föstudaginn og ef allt væri samkvæmt áætlun gæti hann byrjað að æfa eðlilega með liðinu á ný í kjölfar þess.

Hann hefur misst af sex fyrstu umferðum úrvalsdeildarinnar vegna meiðslanna og missir af sjöunda leiknum næsta laugardag þegar Manchester United tekur á móti Everton. Þá tekur við landsleikjahlé og góðar líkur ættu því að vera á að Rashford verði mættur til leiks í áttundu umferðinni þegar United sækir Leicester heim 16. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert