Formaður ensku úrvalsdeildarinnar að segja af sér?

Gary Hoffman.
Gary Hoffman. Ljósmynd/Enska úrvalsdeildin

SkySports segjast hafa heimildir fyrir því að formaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, Gary Hoffman, muni segja af sér og það verði tilkynnt í vikunni.

Ástæðan er talin vera mikil óánægja félaganna í deildinni vegna yfirtöku Mohammed bin Salman á Newcastle. Enska úrvalsdeildin er við það að tryggja sér metfjárhæðir fyrir sölu á sjónvarpsrétti í Bandaríkjunum, en þrátt fyrir það virðist Hoffman vera að segja af sér.

Rök einhverra félaga fyrir vantrausti á Hoffman voru að þau hefðu viljað fá að fylgjast betur með kaupferli bin Salman á Newcastle og einhver þeirra voru hörð á því að deildin hefði átt að stoppa það vegna mannréttindabrota og annarra vandamála í Sádi-Arabíu.

Á fundi félaganna 20 í deildinni var kosið um að óska eftir banni við fjárveitingum innan félaga í sömu eigu og knattspynuliðin, sem mundi stoppa bin Salman við að fá fjármagn m.a. frá Sádi-Arabíska ríkinu og fjárfestingasjóði þess. Hann er krónprins og varnarmálaráðherra heimalandsins og hefur því gott aðgengi að fjármunum ríkisins. Newcastle var eina félagið sem kaus gegn tillögunni en Manchester City, sem er í eigu Sheikh Mansour, ráðherra og milljarðamærings frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, sat hjá.

Hoffman sá til þess fyrr á árinu að sex stærstu félög landsins fengu sekt þegar þau reyndu að stofna Ofurdeild ásamt öðrum risafélögum Evrópu en sú hugmynd féll um sjálfa sig innan tveggja sólarhringa. Talið er að Hoffman hafi spilað stóran þátt í því.

SkySports segja einnig að Debbie Hewitt verði næsti formaður deildarinnar, en hún yrði þá fyrsti kvenformaðurinn í sögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert