Hamrarnir sömdu við lykilmann

Michail Antonio í leik með West Ham gegn Arsenal í …
Michail Antonio í leik með West Ham gegn Arsenal í vetur. AFP

West Ham tilkynnti í dag að gengið hefði verið frá nýjum samningi við jamaíska knattspyrnumanninn Michail Antonio til tveggja ára.

Antonio hefur verið í stóru hlutverki hjá Lundúnaliðinu, sérstaklega síðustu átján mánuðina, en hann hefur skorað átta mörk í úrvalsdeildinni það sem af er tímabilinu og skoraði tíu mörk í deildinni í fyrra, og reyndar einnig árið þar á undan.

Hann hefur leikið með West Ham frá 2015 þegar hann kom til félagsins frá Nottingham Forest en þá hafði hann leikið í B- og C-deildunum þar, með Sheffield Wednesday, Colchester, Southampton, Cheltenham og Reading.

Antonio er fæddur í London en er af jamaísku bergi brotinn og hóf að leika með landsliði Jamaíku árið 2021. Þar hefur hann líka farið vel af stað og skorað tvö mörk í fyrstu þremur landsleikjum sínum, fyrst sigurmark gegn El Salvador, 1:0, í undankeppni HM 12. nóvember, og síðan stórglæsilegt mark í 1:1 jafntefli gegn Bandaríkjunum fjórum dögum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert