Ólíklegt að United styrki hópinn

Ralf Rangnick, stjóri Manchester United.
Ralf Rangnick, stjóri Manchester United. AFP

Það er fátt sem bendir til þess að Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, muni styrkja leikmannahóp sinn í janúarglugganum. Það er talkSport sem greinir frá þessu.

Rangnick tók við stjórnartaumunum hjá United í nóvember þegar Ole Gunnar Solskjær var rekinn frá félaginu.

Þýski stjórinn fór ágætlega af stað með liðið en það hefur hallað undan fæti í undanförnum leikjum og hefur liðið fengið 4 stig af 9 mögulegum í síðustu þremur leikjum sínum í úrvalsdeildinni.

Þá bárust fréttir af sundrung innan leikmannahópsins í vikunni og að margir leikmenn liðsins hefðu litla trú á þjálfunaraðferðum Rangnicks.

Anthony Martial er að öllum líkindum á förum frá félaginu til Sevilla á Spáni og þá hafa þeir Donny van de Beek, Paul Pogba og Jesse Lingard verið orðaðir við brottför í janúar.

United er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig, fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti, þegar deildin er hálfnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert