Fær ekki að taka við Everton

Roberto Martínez stýrir landsliði Belgíu í dag.
Roberto Martínez stýrir landsliði Belgíu í dag. AFP

Roberto Martínez verður ekki næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Everton. Það er Telegraph sem greinir frá þessu.

Martínez, sem er 48 ára gamall, er landsliðsþjálfari Belgíu í dag en forráðamenn belgíska knattspyrnusambandsins hafa ekki áhuga á því að Spánverjinn stýri bæði Everton og Belgíu á sama tíma.

Sjálfur var þjálfarinn spenntur fyrir því að stýra báðum liðum á sama tíma en hann var þjálfari Everton á árunum 2013 til ársins 2016 áður en hann var rekinn.

Everton leitar að nýjum knattspyrnustjóra eftir að Rafael Benítez var rekinn frá félaginu í gær en Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði félagsins, hefur einnig verið orðaður við starfið.

Everton hefur ekki gengið vel á leiktíðinni og er með 19 stig í sextánda sæti deildarinnar, 6 stigum frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert