Haaland: Líður eins og City sé heimili mitt

Erling Haaland skoraði tvennu fyrir Noreg í 3:2-sigri á Svíþjóð …
Erling Haaland skoraði tvennu fyrir Noreg í 3:2-sigri á Svíþjóð í gær. AFP/Javad Parsa

Norski markahrókurinn Erling Haaland var formlega tilkynntur sem leikmaður Englandsmeistara Manchester City í dag. Haaland kveðst mjög spenntur fyrir nýrri áskorun og að honum líði nokkurn veginn eins og hann sé heima hjá sér.

„Man. City eru frábær skipti fyrir mig. Ég er stoltur. Það eru svo margir heimsklassa leikmenn í þessu liði og [Pep] Guardiola er einn besti knattspyrnustjórinn í sögunni.

Því hef ég trú á því að ég sé á réttum stað til þess að uppfylla metnað minn. Ég vil skora mörk, vinna titla og bæta mig,“ sagði Haaland í samtali við heimasíðu Man. City.

Faðir Haalands, Alf-Inge, lék í tæpan áratug í ensku úrvalsdeildinni með Nottingham Forest, Leeds United og loks Man. City.

Erling fæddist í Leeds sumarið 2000, sama sumar og Alf-Inge skipti yfir til Man. City og kveðst Erling ávallt hafa verið stuðningsmaður City.

„Ég fæddist á Englandi þannig að ég hef stutt Man. City alla mína ævi. Ég veit mikið um félagið. Mér líður svolítið eins og þetta sé heimili mitt.

Ég hef farið á fjölda leikja með City. Svo tel ég að ég geti þróast og náð því besta úr leik mínum hjá City,“ bætti Erling við í samtali við heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert