Martínez skrifar undir samning United

Lisandro Martinez hefur skrifað undir.
Lisandro Martinez hefur skrifað undir. Manchester United/Twitter

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lisandro Martínez skrifaði í dag formlega undir samning sem leikmaður Manchester United en hann var tilkynntur sem nýr leikmaður félagsins fyrr í þessum mánuði.

Martínez og Cristian Eriksen komu í fyrsta sinn á æfingasvæði Mancheser United í gær þar sem liðið var erlendis í æfingaferð þegar þeir voru tilkynntir.

Lisandro Martínez var tilkynntur þann 17. júlí þar sem kom fram að samkomulag um að hann kæmi til félagsins hefði verið náð en hann hafði ekki skrifað undir samning sinn fyrr en nú. Samningurinn er til fimm ára og kaupverðið 55 milljónir punda en hann kemur frá Ajax þar sem hann lék áður undir stjorn Eriks ten Hag, núverandi knattspyrnustjóra Manchester United.

Nú hefur hann sett nafn sitt á blað og verið myndaður í bak og fyrir í aðal- og varabúning liðsins.

Cristian Eriksen, danski landsliðsmaðurinn, var einnig tilkynntur í síðasta mánuði meðan liðið var í æfingaferð sinni. Núna hefur hann klæðst treyjunni í fyrsta sinn og talaði um mikilvægi knattspyrnustjóra liðsins, Erik ten Hag, í ákvörðun sinni að koma til liðs við félagið. Ten Hag var knattspyrnustjóri Ajax þegar Eriksen var þar að koma sér aftur í form eftir hjartastoppið á EM síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert