Fyrrverandi stjóri og fyrirliði Arsenal látinn

Terry Neill er látinn, 80 ára að aldri.
Terry Neill er látinn, 80 ára að aldri. Ljósmynd/Arsenal

Terry Neill, fyrrverandi fyrirliði og knattspyrnustjóri enska liðsins Arsenal, er látinn 80 ára að aldri.

Miðjumaðurinn lék á sínum tíma 275 leiki fyrir Arsenal og skoraði í þeim tíu mörk. Hann var aðeins tvítugur þegar hann tók við fyrirliðabandinu árið 1962.

Neill lék 44 landsleiki með Norður-Írlandi og var einnig leikmaður Hull City um tíma. Hann stýrði einnig Hull, norðurírska landsliðinu og Tottenham, áður en hann tók við Arsenal árið 1976 og stýrði liðinu í sjö ár.

Undir stjórn Neill komst Arsenal í þrígang í bikarúrslit og varð bikarmeistari árið 1979 eftir sigur á Manchester United. Þá komst liðið í úrslit Evrópukeppni bikarhafa árið 1980 en tapaði fyrir Valencia í úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert