Tottenham sigraði Leicester í átta marka leik

Skalla mark Harry Kane gegn Leicester City í dag.
Skalla mark Harry Kane gegn Leicester City í dag. AFP/Isabel Infantes

Tottenham Hotspurs fór illa með Leicester City þegar liðin mættust í London í dag í 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Leikurinn endaði 6:2 fyrir Tottenham.

Eftir aðeins 6 mínútna leik braut Davinson Sánchez í liði Tottenham á James Justin. Youri Tielemans fór á punktinn fyrir Leicester en skot hans er varið. Eftir VAR skoðun kom þó í ljós að Hugo Lloris steig of snemma af línu sinni svo Youri fékk annað tækifæri. Seinni spyrnan hans var svo mun betri og hann skoraði úr henni, 0:1.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Harry Kane fyrir Spurs með skalla eftir stoðsendingu frá Svíanum Dejan Kulusevski, 1:1. 

Tottenham komst svo yfir á 21. mínútu þegar Eric Dier skallaði boltann inn eftir stoðsendingu frá Ivan Perisic, 2:1.

Á 41. mínútu jafnaði James Maddison metin fyrir Leicester. Timothy Castagne kemur með stoðsendingu og Maddison tekur boltann á lofti inn í markið, 2:2. 

Í seinni hálfleik kom Rodrigo Bentancur, Tottenham yfir í 3:2 á 48. mínútu. Bentancur vann boltann af Ndidi á miðjum vallarhelmingi Leicester, tók sprett upp að vítateignum og hamraði boltann í netið, 3:2.

Á 59. mínútu kom Heung-Min Son inn á sem varamaður og þvílík innkoma.

 Á 73. mínútu lék  Son sér að tveimur varnamönnum Leicester og setti boltann í markið og staðan því komin í 4:2 en það var aðeins fyrsta mark hans í leiknum.

Á 84. mínútu sendir Harry Kane boltann rétt fyrir utan D-bogann á vítateig Leicester þar sem Son var mættur og neglir honum í markið, 5:2.

Son fullkomnar svo þrennu sína aðeins tveim mínútum síðar með skalla eftir stoðsendingu frá Dejan Kulusevski. Leikurinn endaði því 6:2 fyrir Tottenham og Son fyrsti leikmaður Tottenham til að skora þrennu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Tottenham er nú í 2. sæti deildarinnar með 17 stig. Jafn mörg og Manchester City í fyrsta sæti.

Son Heung-Min með þrjá fingur uppi, einn fyrir hvert mark …
Son Heung-Min með þrjá fingur uppi, einn fyrir hvert mark sem hann skoraði í kvöld AFP/Isabel Infantes
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert