March skaut Liverpool í kaf

Solly March í þann mund að skora glæsilegt annað mark …
Solly March í þann mund að skora glæsilegt annað mark sitt. AFP/Glyn Kirk

Brighton & Hove Albion vann þægilegan heimasigur á Liverpool, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag og höfðu liðin þar með sætaskipti. Solly March fór á kostum er hann skoraði tvö marka Brighton og lagði upp það þriðja.

Brighton réði lögum og lofum í fyrri hálfleiknum en auðnaðist ekki að skora.

March fékk sannkallað dauðafæri á áttundu mínútu þegar hann skaut í fjærhornið en Trent Alexander-Arnold bjargaði rétt fyrir framan marklínu.

Nokkrum mínútum fyrir leikhlé fékk Brighton dæmda vítaspyrnu þegar Alisson felldi March innan vítateigs. VAR dró dóminn hins vegar til baka þar sem March var rangstæður í aðdragandanum.

Undir blálok hálfleiksins lagði títtnefndur March svo boltanum út á Evan Ferguson sem var í opnu skotfæri fyrir miðjum teignum en skot hans laust og beint á Alisson.

Það tók Brighton hins vegar ekki langan tíma að ná forystunni í síðari hálfleik og var það vitanlega March sem skoraði á 47. mínútu.

Joel Matip átti þá slaka sendingu sem Alexis Mac Allister komst inn í, hann kom boltanum á Kaoru Mitoma sem lék með boltann inn í vítateig og renndi honum þvert fyrir markið þar sem March potaði honum yfir línuna.

March var ekki hættur því nokkrum mínútum síðar skoraði hann annað mark sitt og Brighton.

Ferguson átti þá stungusendingu  á March sem tók boltann vel með sér inn í vítateiginn og skoraði með frábæru skoti í bláhornið.

Liverpool skapaði sér í kjölfarið örfá færi þar sem Cody Gakpo komst næst því að minnka muninn tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok en Robert Sánchez varði vel af örstuttu færi.

Það var hins vegar Brighton sem gerði endanlega út um leikinn með þriðja markinu níu mínútum fyrir leikslok.

Varamaðurinn Joel Veltman tók þá innkast hægra megin, March skallaði boltann áfram á varamanninn Danny Welbeck, sem lyfti boltanum glæsilega yfir varamanninn Joe Gomez og þrumaði boltanum svo í nærhornið á lofti, glæsilega gert.

Fleiri urðu mörkin ekki og auðveldur sigur Brighton niðurstaðan.

Brighton fór með sigrinum upp fyrir Liverpool  og er nú í sjöunda sæti með 30 stig. Liverpool er í því áttunda með 28 stig.

Kaoru Mitoma og Pervis Estupinan sækja að Mohamed Salah.
Kaoru Mitoma og Pervis Estupinan sækja að Mohamed Salah. AFP/Glyn Kirk
Brighton 3:0 Liverpool opna loka
90. mín. Liverpool fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert