Dýrasti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar

Enzo Fernández sló í gegn með Argentínu á HM í …
Enzo Fernández sló í gegn með Argentínu á HM í Katar og var valinn besti ungi leikmaður keppninnar. AFP/Franck Fife

Chelsea og Benfica hafa náð samkomulagi um kaup enska félagsins á argentínska knattspyrnumanninum Enzo Fernández fyrir 106 milljónir punda.

Sky Sports skýrir frá þessu og segir að einungis sé eftir að ganga frá formsatriðum en þar eru menn í kapphlaupi við klukkuna því lokað verður fyrir félagaskiptin á Englandi klukkan 11 í kvöld að íslenskum tíma.

Þetta er metupphæð fyrir leikmann í ensku úrvalsdeildinni en fyrra metið átti Jack Grealish. Manchester City keypti hann af Aston Villa fyrir 100 milljónir punda fyrir tveimur árum.

Upphæðin, 106 milljónir punda, var sú sama og þurfti að greiða, samkvæmt samningi Fernández, til að kaupa hann lausan frá Benfica.

Fernández sló í gegn með Argentínu á heimsmeistaramótinu í Katar í vetur en hann var í lykilhlutverki í sigri liðsins á HM, enda þótt hann hefði aðeins leikið örfáa landsleiki fyrir keppnina. Fernández var valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Samningurinn er sagður vera til átta og hálfs árs, eða til sumarsins 2031.

Uppfært kl. 00.30:
Roger Schmidt knattspyrnustjóri Benfica  staðfesti rétt í þessu að félagaskipti Fernández til Chelsea væru frágengin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert