„Algjört skítatímabil“

Richarlison eftir að Tottenham féll úr leik í gær.
Richarlison eftir að Tottenham féll úr leik í gær. AFP/Justin Tallis

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Richarlison skaut föstum skotum að Antonio Conte, stjóra Tottenham, eftir að liðið féll úr leik í Meistaradeildinni í gær.

Tottenham og AC Milan gerðu markalaust jafntefli í síðari leik liðanna í Lundúnum en fyrri leik liðanna lauk með 1:0-sigri AC Milan sem er komið áfram í 8-liða úrslitin.

Richarlison byrjaði á varamannabekk Tottenham í gær en kom inn á sem varamaður þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

„Ég skil ekki af hverju ég byrjaði leikinn á bekknum ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Richarlison í samtali við ESPN eftir leikinn.

„Ég var búinn að vera spila vel í síðustu tveimur leikjum en er svo bekkjaður fyrir þennan leik sem ég skil engan veginn. Ég á eftir að ræða við þjálfarann en ég legg mig allan fram, alltaf, sama hvort það er á æfingasvæðinu eða í leikjum.

Þetta er búið að vera algjört skítatímabil ef svo má segja, afsakið orðbragðið. Gengið hefur verið upp og niður og ég hef ekki spilað jafn mikið og ég hefði viljað,“ bætti Richarlison við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert