Lineker tekinn af skjánum

Gary Lineker.
Gary Lineker. AFP

Fyrrum knattspyrnumaðurinn Gary Lineker mun stíga til hliðar í ótiltekinn tíma sem þáttastjóri Match of the Day, umfjöllunarþáttar um ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu, á BBC. 

Þessi tilkynning frá BBC kemur eftir að fyrrum framherjinn, sem er 62 ára gamall, bar saman nýju löggjöfina sem ríkistjórnin lagði fram um flóttamenn við Þýskaland á fjórða áratug síðustu aldar.

Það olli deilum um hvort hann braut óhlutdrægnireglur BBC en Lineker er sjálfstæður fréttamaður hjá ríkismiðlinum.

Þar sem hann er ekki fastráðinn starfsmaður og ber ekki ábyrgð á fréttum né pólitísku efni er honum ekki skylt að fylgja sömu reglum um óhlutdrægni. 

En aftur á móti vöktu ummæli hans gagnrýni frá stjórnmálamönnum Íhaldsflokksins og talsmaður BBC sagði að miðilinn hafi átt í víðtækum viðræðum við Lineker og teymi hans undanfarna daga.

„Við höfum sagt að við teljum nýlega virkni hans á samfélagsmiðlum brjóta í bága við viðmiðunarreglur okkar.“

Hann mun því ekki stýra þættinum aftur fyrr en samkomulag næst um notkun hans á samfélagsmiðlum.  

Uppfært 19:00

Þessi ákvörðun BBC hefur verið harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum og hafa meðal annars samstarfsaðilar Lineker, Ian Wright og Alan Shearer, sem áttu að vera gestir annað kvöld, báðir sagst ekki ætla að mæta í þáttinn á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert