Bournemouth skellti Liverpool

Svekktur Mohamed Salah eftir að hafa klúðrað vítinu.
Svekktur Mohamed Salah eftir að hafa klúðrað vítinu. AFP/Steve Bardens

Bournemouth vann frækinn heimasigur á Liverpool, 1:0, í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu á Vitality-vellinum í dag. 

Liverpool mætti í leikinn í dag eftir að hafa unnið Manchester United, 7:0, í sögulegum leik á Anfield síðustu helgi. Sömu helgi töpuðu Bournemouth-menn, 2:3, á lokasekúndunni gegn toppliði Arsenal. 

Fyrri hálfleikurinn var ansi fjörugur og skiptu liðin á milli sín færunum. Virgil van Dijk fékk hörkuskallafæri strax á sjöttu mínútu sem Jefferson Lerma bjargaði á línu. Þremur mínútum síðar slapp Dango Ouattara í gegn hinum megin en tók of stóra snertingu er hann fór framhjá Alisson, markverði Liverpool, og setti boltann í hliðarnetið. 

Sigurmark leiksins skoraði Philipp Billing á 28. mínútu. Þá fékk hann sendingu þvert fyrir frá Ouattara og potaði boltann fast í netið, 1:0. 

Liverpool-liðinu gekk brösuglega að skapa sér færi næstu mínútur og fór Bournemouth marki yfir í hálfleikinn. 

Á 68. mínútu, eftir athugun í VAR-sjánni fékk Liverpool vítaspyrnu. Þar kom í ljós að Diogo Jota skallaði boltann beint í höndina á Adam Smith og víti dæmt. 

Mohamed Salah steig á punktinn en skaut lengst framhjá, hrikaleg vítaspyrnu sem reyndist ansi dýrkeypt. 

Það sem eftir lifði leiks reyndi Liverpool að jafna metin en leikmenn liðsins áttu fá svör við öflugum varnarleik Bournemouth og því lokatölur 1:0, Bournemouth í vil.

Bourmeouth klifrar úr neðsta sæti í það 16. með sigrinum hér í dag, nú með 24 stig. Liverpool er í 5. sæti með 42.

Bournemouth 1:0 Liverpool opna loka
90. mín. Það eru fimm mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert