Fjarlægður úr WhatsApp-grúppu United

Jadon Sancho.
Jadon Sancho. AFP/Paul Ellis

Dagar enska knattspyrnumannsins Jadon Sancho hjá Manchester United virðast með öllu taldir.

Sancho hefur verið í útlegð frá aðalliði United eftir að kastaðist í kekki milli hans og knattspyrnustjórans Eriks ten Hag.

Ten Hag sagði Sancho ekki hafa verið í leikmannahópnum fyrir leik gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í september síðastliðnum vegna þess að hann hefði ekki æft nægilega vel.

Sancho brást við með því að birta yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði ten Hag ekki segja satt. Sancho kvaðst þá þreyttur á því að vera gerður að blóraböggli.

Hann hefur neitað að biðja knattspyrnustjórann Erik ten Hag afsökunar og fær því ekki að æfa með aðalliðinu og er meinaður aðgangur að mötuneytinu og búningsklefa aðalliðsins.

The Sun greinir frá því að nú sé búið að höggva á annan hnút með því að fjarlægja Sancho úr WhatsApp-grúppu leikmanna og þjálfarateymisins, spjallþræði á samskiptamiðlinum WhatsApp þar sem ten Hag og aðstoðarmenn hans koma mikilvægum skilaboðum áleiðis til leikmanna.

Allt útlit er því fyrir að Sancho verði seldur í janúarglugganum sem opnar um áramótin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert