Hefur engar áhyggjur af Núnez

Darwin Núnez í góðu færi í leiknum við Newcastle.
Darwin Núnez í góðu færi í leiknum við Newcastle. AFP/Peter Powell

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst ekki hafa neinar áhyggjur þó framherjinn Darwin Núnez eigi í vandræðum með að nýta marktækifæri sín og segir hann gríðarlega mikilvægan fyrir lið sitt.

Núnez náði ekki að skora í sigurleiknum gegn Newcastle í gær, 4:2, þrátt fyrir þrjú dauðafæri en hann lagði upp eitt markanna fyrir Mohamed Salah á óeigingjarnan hátt. Liverpool átti 37 markskot í leiknum sem er met í deildinni.

„Fótboltinn er eins og lífið, þú verður bara að halda áfram þínu striki. Hann er okkur gríðarlega mikilvægur. Hann hélt vörn Newcastle í heljargreipum og var stórkostlegur. Um 99,99 prósent allra leikmanna hefðu reynt að skora úr þessari stöðu en í staðinn gaf hann boltann á Salah. Ég er gríðarlega ánægður með hann. Þið mynduð ekki trúa því hve litlar áhyggjur við höfum af þessum færum,“ sagði Klopp í viðtali við Viaplay eftir leikinn.

„Darwin mun skora mörk. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af öðru,“ sagði Klopp en Úrúgvæinn hefur skorað fimm mörk í úrvalsdeildinni í vetur, eins og Diogo Jota, en Mohamed Salah er langmarkahæsti leikmaður Liverpool með 14 mörk í deildinni.

Núnez hefur hins vegar lagt upp sex mörk og er í fimmta sæti af öllum leikmönnum deildarinnar í þeirri tölfræði. Salah og Ollie Watkins hjá Aston Villa eru þar í efsta sæti með átta stoðsendingar hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert