Arsenal vann sannfærandi sigur á Nottingham Forest, 3:0, á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Með sigrinum fór Arsenal upp í 22 stig en Chelsea og Brighton eru með sama stigafjölda. Eru þau stigi á eftir Manchester City í öðru sæti og sex stigum á eftir toppliði Liverpool. Liverpool og City eiga bæði leik til góða. Forest er í sjötta sæti með 19 stig.
Arsenal byrjaði af krafti og sótti mikið fyrstu mínúturnar. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 15. mínútu er Bukayo Saka negldi boltann glæsilega í netið utarlega í teignum eftir sendingu frá Martin Ödegaard.
Forest komst lítið yfir miðju á meðan Saka og Leandro Trossard komust báðir nálægt því að skora hinum megin. Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri í hálfleiknum og var staðan eftir hann 1:0.
Thomas Partey kom inn á fyrir Arsenal fyrir seinni hálfleikinn og hann skoraði annað markið á 7. mínútu hans með fallegu skoti utan teigs í bláhornið fjær.
Eftir markið róaðist leikurinn töluvert. Ákefð Arsenal varð mun minni og hinum megin skapaði Forest sér sáralítið.
Ethan Nwaneri kom inn á sem varamaður á 82. mínútu og við það færðist aftur meiri kraftur í Arsenal-liðið og strákurinn ungi gerði þriðja markið á 86. mínútu er hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá öðrum varamanni, Raheem Sterling.
Hvorugt liðið komst nálægt því að skora eftir það og sannfærandi sigur Arsenal varð raunin.