Stefnum á að vera með þeim bestu í heimi

Jóhannes Páll Durr
Jóhannes Páll Durr Ljósmynd/Aðsend

Jóhannes Páll Durr, liðsstjóri íslenska landsliðsins í efótbolta, segist fullviss um að landsliðið muni komast á heimsmeistaramótið sem haldið verður í ágúst. Undankeppnin er fram undan og æfingaleikir eru þegar hafnir.

„Það hefur gengið vel í æfingaleikjum. Í seinustu viku kepptum við á móti Eistlandi og Finnlandi og það gekk í raun framar vonum,“ segir hann í samtali við blaðamann.

Bendir hann á að í leikjunum við Eista og Finna hafi Aron Þormar Lárusson unnið alla sína leiki með sannfærandi markatölu. Aron er ríkjandi Íslandsmeistari og var valinn íþróttakarl Fylkis á síðasta ári.

Aron Þormar Lárusson
Aron Þormar Lárusson Ljósmynd/KSÍ

Undankeppni á fimmtudag og föstudag

Næstu æfingaleikir eru á dagskrá á morgun og á miðvikudag. Að þeim loknum hefst undankeppnin, strax á fimmtudag, og verða leikir bæði á fimmtudag og föstudag. Leikirnir verða sýndir í beinni á twitch-rás KSÍ: footballiceland.

Stefnan fyrir heimsmeistaramótið, sem nefnist FIFAe Nations Cup, er fyrst og fremst að komast í úrslitakeppnina og öðlast reynslu fyrir liðið á alþjóðlegum vettvangi.

„Við stefnum á að vera eitt besta land heimsins í rafíþróttum fyrir árið 2024. FIFA er frábær vettvangur fyrir okkur til að tilkynna heiminum að við séum að vinna í þessu. Þar sem Íslendingar eru mjög færir í FIFA þá er það frábært flaggskip fyrir okkur í þeim málum.“

Jóhannes sér um skipulagningu æfingaleikja og undirbúning landsliðsins fyrir forkeppni heimsmeistaramótsins. Starfar hann fyrir Rafíþróttasamtök Íslands sem vinna náið með Knattspyrnusambandinu í þessari rafíþróttagrein.

En hvað gerir liðsstjóri?

„Ertu ekki að ruglast? Ég er harðstjóri,“ svarar Jóhannes og hlær um leið. Hann útskýrir svo að starfinu fylgi það hlutverk að stilla upp leikjum við lið annarra landa og halda utan um allt sem tengist leikjum og leikmönnum liðsins.

Höfuðstöðvar FIFA.
Höfuðstöðvar FIFA. AFP

Alltaf haft áhuga á FIFA

Hann spilar sjálfur FIFA og hefur alltaf verið mikill áhugamaður um leikinn. Þess vegna hafi verið rökrétt að setja hann beint í verkefnið um leið og hann hóf störf hjá RÍSÍ.

„En það tók alveg smá tíma að ná að lesa mig í gegnum alla þessa samninga og reglur sem við þurfum að hlýða gagnvart Alþjóðaknattspyrnusambandinu. Þau eru ekkert að grínast með regluverkið. En það er mjög mikilvægt að við fylgjum þeim eftir í einu og öllu svo við séum ekki dæmd úr leik,“ segir Jóhannes.

„Það er auðvelt fyrir þau sem eru fyrst núna að byrja að kynna sér þetta, að hugsa sem svo að þetta sé bara að kveikja á Playstation og svo ertu að keppa í forkeppni HM. En þetta er mun stærra verkefni en það. FIFA sem rafíþrótt er ört vaxandi og umgjörðin er rosalega mikil.“

Engin kynjatakmörkun

Hann segir að hver sem er geti orðið liðsstjóri, ef áhuginn er til staðar og ef unnið er markvisst að því. Með sama hætti geta allir í raun orðið atvinnumenn í FIFA. Engin kynjatakmörkun er til staðar og eru til að mynda öll kyn velkomin til þátttöku í mótinu.

Spurður um þá eiginleika sem gagnast honum best í starfinu er Jóhannes fljótur að svara. Endalausir persónutöfrar og fallegt andlit, svona fyrst og fremst. En þar fyrir utan segir hann hjálpa til að vera mjög sveigjanlegur, jákvæður og vinna vel undir álagi. Mesta pressan komi frá honum sjálfum, þar sem mikil ábyrgð fylgi því að vera erindreki Íslands í efótbolta.

Þrátt fyrir trega hjá sumu fólki, hvað varðar það að viðurkenna rafíþróttir, segist Jóhannes ekki hafa fundið fyrir fordómum í samfélaginu gagnvart starfi sínu innan rafíþróttahreyfingarinnar. Almennt hafi fólk tekið því fagnandi.

„Það eru ákveðnar týpur sem viðbúið er að beri fordóma fyrir rafíþróttum, en ég hef einfaldlega ekki rætt rafíþróttir við þá einstaklinga, enda eru sem betur fer fáir á þeirri lest. Ég geri mér grein fyrir því að það eru fordómar gagnvart rafíþróttum en það er best að við höldum bara áfram að vera virk í því að brjóta niður þessa fordóma og vinna gott starf, innan félagsins sem utan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert