Vinnuumhverfið tryggt í leikjaiðnaðinum

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Alexandra Diljá Bjargardóttir, meðstofnandi …
Á myndinni eru, talið frá vinstri, Alexandra Diljá Bjargardóttir, meðstofnandi grasrótarsamtakanna Game Makers Iceland, Þorgeir F. Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda, og Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrr í dag hittust fulltrúar Samtaka leikjaframleiðanda (IGI), Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ) og Game Makers Iceland (GMI) til þess að undirrita sáttmála um örugga vinnustaði í höfuðstöðvum CCP.

Innan leikjaiðnaðarins á Íslandi eru haldnir ýmsir viðburðir árlega, ráðstefnur, námskeið, keppnir og var því talið mikilvægt að hafa ákveðinn sáttmála til þess að tryggja öryggi allra sem koma að.

Frá undirritun sáttmálans í höfuðstöðvum CCP í Grósku.
Frá undirritun sáttmálans í höfuðstöðvum CCP í Grósku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi ekki liðið í rafíþróttum á Íslandi

Sáttmálinn sem var undirritaður felur í sér að íslensk tölvuleikjafyrirtæki, samtök innan leikjaiðnaðar og hagsmunaaðilar skuldbinda sig til þess að skapa starfsumhverfi í leikjaiðnaði þar sem óæskileg hegðun á borð við kynferðislega áreitni og ofbeldi, hótanir, einelti og niðrandi orðræða verður ekki liðin.

Hér að neðan má sjá hluta úr sáttmálanum.

Skjáskot af hluta úr sáttmálanum.
Skjáskot af hluta úr sáttmálanum.

Söguleg stund í sögu íslenskra rafíþrótta

Þetta er að öllum líkindum í fyrsta sinn sem ólíkir aðilar innan tiltekins iðnaðar taka höndum saman og lýsa því yfir að óæskileg hegðun verði litin alvarlegum augum og að tekið verði á málum þegar þau koma upp.

„Það er markmið okkar hjá RÍSÍ að byggja rafíþróttir fyrir alla og þá er mikilvægt að allir geti upplifað sig velkomna og örugga. Það gerist ekki af sjálfu sér, en rétt eins og við viljum vera leiðandi í barna- og unglingastarfi rafíþrótta í heiminum, þá viljum við einnig vera leiðandi þegar kemur að uppbyggingu á öruggu rafíþróttaumhverfi sem er laust við fordóma og áreitni,“ segir Ólafur Hrafn, formaður Rafíþróttasambands Íslands.

„Umræðan í samfélaginu síðastliðna mánuði hefur sýnt það að mikilvægt er að hafa skýra umgjörð um þessi erfiðu mál. Því vildum við hvetja alla aðila innan okkar raða til þess að setja sér skýrar verklagsreglur og sameinast um það að fordæma hvers kyns ofbeldi og áreitni.“ 

Alexandra Diljá segir:

„Samtökin okkar hafa alltaf lagt mikla áherslu á að öllum líði eins og þau séu örugg og velkomin óháð kyni og bakgrunni. Við erum þess vegna gríðarlega stolt af því að fá að taka þátt í þessu mikilvæga skrefi og taka skýra afstöðu ásamt iðnaðinum gegn hvers kyns ofbeldi. Það er mikilvægt að senda þau skilaboð til starfsmanna og iðkenda að þau mál sem upp koma sem tengjast einelti, áreitni eða ofbeldi verði tekin föstum tökum og ekki sópað undir teppi.“

Þorgeir Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda segir: 

„Leikjaiðnaður hefur vaxið hratt á undanförnum árum og starfsmönnum fjölgað ört. Til þess að við náum áframhaldandi efnahagslegri velsæld skiptir öllu máli að hver og einn upplifi virðingu og hvatningu í starfi. Jákvæðni er undanfari mannlegrar velgengni. Við þurfum öll gott og hvetjandi umhverfi ef við ætlum að ná árangri saman.“

Sáttmálann í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert