Fá að leika norn á sautjándu aldar Íslandi

Skjáskot/Parity

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Parity hefur nú auglýst væntanlegan tölvuleik, Island of Winds, sem býr að undurfagurri íslenskri náttúru, nornagöldrum og íslenskum þjóðsögum.

Fallegt umhverfið innblásið af Íslandi

„Innblásturinn kemur að mestu leyti frá þekktum svæðum eins og Ásbyrgi, Dynjanda, Reynisfjöru, Eyjafjallajökli, Jökulsárlóni, Laxárgljúfri og öllum margbrotnu fjörðum sem fylla Vestfjarðakjálkann,“ segir María Guðmundsdóttir, stofnandi Parity, í samtali við mbl.is.

Hún segir innblásturinn ekki einungis koma frá ákveðnum stöðum heldur jafnframt frá íslenskri veðráttu og þá helst þessu „sorgbitna vorútliti með gulri slikju sem hangir yfir Íslandi árið um kring“.

Skjáskot/Parity

Bjuggu til persónu sem þær tengdu við

Söguhetjan í tölvuleiknum er nornin Brynhildur og munu leikmenn fylgja henni í opnum heim. Brynhildur kemur úr hugarheimi Maríu Guðmundsdóttir og Heiðu Rafnsdóttur sem er hugmyndalistamaður tölvuleiksins og hannaði útlit söguhetjunnar.

„Okkur langaði að búa til persónu í tölvuleik sem við tengdum betur við, okkur fannst alltof margir leikir fókusa á þetta „coming of age“ hjá kvenpersónum í stað að vera með manneskju sem hefur séð tímana tvenna án þess að vera háöldruð. Okkur fannst vanta meiri vídd í persónur sem eru á kynbombu/barnseignaraldri,“ segir María en Brynhildur og baksaga hennar spegla íslenskt umhverfi sautjándu aldar í sambland við nútímann þar sem hún glímir við svipuð vandamál og nútímamanneskjan glímir við.

„Hluti af spiluninni í Island of Winds er að finna staði sem vekja upp allskonar minningar hjá Brynhildi, spilarinn kynnist henni því jafnt og þétt.“

Vildu alls ekki bæta við fleiri víkingum eða ásum

„Okkur langaði að segja sögu sem við tengdum við og láta leikinn hafa einkennandi útlit. Þá datt okkur í hug að hafa leikinn á landi sem við þekkjum best, Íslandi, en vildum alls ekki bæta við fleiri víkingum eða Óðni eða Þór.

Þjóðsögur og kynjaverur komu þá næst í hugann en einnig galdrafárið á Íslandi. Island of Winds tekur því innblástur frá sautjándu aldar Íslandi og hugarheimi þess tíma þar sem fólk trúði á einhyrninga, marbendla og aðrar kynjaverur,“ segir María um þennan áhugaverða tölvuleik.

Teymið á bakvið leikinn samanstendur af átján einstaklingum en þar af eru nokkrir les- eða litblindir og verða ákveðnar stillingar aðgengilegar fyrir litblinda. María segir teymið hafa það stöðugt í huga við þróun leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert