Ef þú ert að horfa, þá er ég dáinn

Technoblade skilar kveðju í gegnum föður sinn, en hann lést …
Technoblade skilar kveðju í gegnum föður sinn, en hann lést af völdum krabbameins. Skjáskot/YouTube/Technoblade

Vinsæli Minecraft-streymandinn Technoblade er látinn af völdum krabbameins en hann var 23 ára gamall.

Myndbandi var hlaðið upp á YouTube-rásinni hans undir fyrirsögninni „so long nerds“, þar fer faðir hans með frásögnina og skilar kveðju sem Technoblade hafði skrifað niður.

Technoblade þakkar aðdáendum sínum og öðrum streymendum fyrir stuðninginn í gegnum árin og uppljóstrar jafnframt sínu raunverulega nafni, sem var Alex.

Ef þú ert að horfa, þá er ég dáinn

„Halló allir, Technoblade hérna. Ef þú ert að horfa á þetta, þá er ég dáinn,“ segir faðir hans fyrir hönd Technoblade.

„Takk fyrir allan þann stuðning við efnið mitt í gegnum árin. Ef ég ætti hundrað önnur líf, held ég að ég myndi kjósa að vera Technoblade aftur í hvert einasta skiptið, þar sem þetta hamingjusömustu ár ævi minnar.“

Í myndbandinu biðst Technoblade afsökunar á að hafa „selt sig út svona mikið undanfarið ár“ með því að selja varning. Hann útskýrir að systkyni hans geta þó gengið í skóla vegna þess, þ.e.a.s ef þau vilja það. 

„Ég vill ekki setja neinn hópþrýsting á þau frá látnum bróður þeirra.“

Á vefversluninni stendur núna að hluti alls hagnaðar af sölu renni til góðgerðarmála, nánar tiltekið Sarcoma Foundation of America.

Lést átta tímum síðar

Faðir Technoblade segir frá því hvernig þeir feðgar ræddu gerð lokamyndbandsins, en segir að Alex hafi átt í erfiðleikum með að skrifa vegna heilsunnar.

Technoblade hafði skrifað handritið fyrir lokamyndbandið í rúminu en lést skömmu síðar.

„Ég held að hann hafi ekki sagt allt það sem hann hefði viljað, en ég held að hann hafi náð að skila frá sér aðalatriðunum.“

„Hann kláraði þetta og svo var hann búinn. Hann lifði í um átta tíma til viðbótar eftir það.“

Sjaldgæfa tegund krabbamein

Í myndbandi sem Technoblade birti í ágúst á síðasta ári sagði hann frá því að hann hefði greinst með krabbamein. Hann sagðist hafa byrjað að finna fyrir verkjum í hægri hendinni sinni í júlí þetta árið.

Að lokum fór hann til læknis og var þá greindur með sarkmein, sem er sjaldgæf tegund krabbameins sem vex í bandvefum líkamans.

„Mér líður svolítið kjánalega að tala um þetta með Minecraft í bakgrunninum, mér finnst það svolítið út í hött,“ sagði Technoblade í myndbandinu.

„En ég er Minecraft-YouTuber, ég sýni ekki andlitið mitt í mynd, sem er, myndi ég halda, hvernig flest fólk myndi ræða alvarlega hluti.“

Samfélagið minnist hans

Fjölmargir úr tölvuleikjasamfélaginu hafa sýnt stuðning sinn á netinu, aðdáun og samhryggð eftir að Technoblade lést, þar á meðal meðlimir úr Dream SMP - sem er mjög vinsæll Minecraft-netþjónn þar sem streymendur segja sögur í samstarfi við hvor annan.

„Fyndinn án þess að þurfa að reyna það. Hæfileikarnir endalausir. Farinn of snemma,“ segir í tísti frá YouTubernum Ted Nivision.

„Technoblade var einstaklingur sem margir okkar horfðu upp til, þar á meðal ég. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir svo marga. Heimurinn verður ekki samur án þín,“ segir í tísti frá streymandanum Eret.

Var alltaf fullur auðmýktar

Fjölskyldan hans gaf einnig frá sér yfirlýsingu í enda lokamyndbandsins, þar sem þau ítreka þakklæti sitt og virðingu fyrir aðdáendum hans og streymendum, og óskuðu eftir friðhelgi í einkalífinu.

„Við, fjölskylda Technoblade, viljum að þið vitið öll hversu mikið hann dáði ykkur og hversu mikla virðingu hann bar fyrir aðdáendum sínum og samstarfsvinum,“ segir fjölskyldan hans meðal annars.

„Meira að segja eftir að hafa náð árangri tókst honum einhvern veginn að halda uppi góðlátlegri auðmýkt sinni.“

Myndbandið í heild sinni má horfa á ofar í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert