Vitnaleiðslur eftir hálfan mánuð í samningsmáli Buttons

Jenson Button á BAR í tímatökunum í Monza þar sem …
Jenson Button á BAR í tímatökunum í Monza þar sem hann varð sjötti. ap

Vitnaleiðslur varðandi rannsókn á því fyrir hvaða lið Jenson Button keppir á næsta ári hefjast eftir hálfan mánuð, að sögn Sir Frank Williams, aðaleiganda og liðsstjóra Williamsliðsins.

Button ekur fyrir BAR en hefur skrifað undir samning um að keppa fyrir Williams á næsta ári. Stjórnendur BAR segjast þó hafa nýtt sér samningsréttarlegan valkost og bundið hann hjá liðinu 2005.

Málið er nú í höndum svonefnds samningsréttarráðs Formúlu-1, en það er óháð nefnd lögfræðinga í Sviss sem vistar alla samninga íþróttarinnar og segir til um hvað sé í gildi og hvað ekki; hver sé í rétti og hver ekki.

Bæði BAR og Williams munu senda lögfræðisveitir sínar til fundarins sem boðaður hefur verið sunnudaginn eftir hálfan mánuð, sama dag og Kínakappaksturinn fer fram. „Við erum að reyna að finna út hvort það er slæmur kínverskur dagur eða góður,“ sagði Williams við fréttamann frönsku fréttastofunnar AFP í Monza í dag og skírskotaði þar með til kínverskra þjóðhátta.

Sir Frank býst við langdreginni málsmeðferð og að niðurstaða fáist jafnvel ekki fyrr en eftir að keppnistímabilinu er lokið um miðjan næsta mánuð. „Síðast þegar við lentum fyrir ráðinu tók um þrjár vikur að fá niðurstöðu, jafnvel lengri tíma. Þeir þurfa að fara yfir öll atriði, vega þau og meta og bera saman bækur sínar,“ sagði hann.

Button, sem þreytti frumraun sína í Formúlu-1 með Williams, hefur staðfest að fjárhagslegur ágreiningur við stjórnendur BAR, um bónusgreiðslur og marg fleira, hafi leitt til þess að hann reyndi að losna út úr samningi sínum hjá BAR.

Jenson Button undir stórri mynd af honum sjálfum í bílskúr …
Jenson Button undir stórri mynd af honum sjálfum í bílskúr BAR í Monza. ap
Jenson Button einbeittur fyrir tímatökurnar í Monza.
Jenson Button einbeittur fyrir tímatökurnar í Monza. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert