Regazzoni ferst í bílslysi

Regazzoni með Niki Lauda á mótsstað.
Regazzoni með Niki Lauda á mótsstað. ap

Svissneski ökuþórinn Clay Regazzoni, sem á sínum tíma vann m.a. fyrsta sigur Williamsliðsins í formúlu-1, beið bana í bílslysi á Ítalíu í dag. Hann var 67 ár að aldri.

Hermt er að bifreið Regazzoni, sem var af gerðinni Chrysler Voyager, hafi skollið beint framan á vörubíl á A1-hraðbrautinni skammt frá borginni Parma á Ítalíu.

Gianclaudio Giuseppe Regazzoni, eins og hann hét fullu nafni, færði Williams sinn fyrsta sigur í formúlu-1 árið 1979. Hann hóf keppni í hollenska kappakstrinum árið 1970 með Ferrari og ók þá við hlið Jacky Ickx.

Hann kom mjög á óvart með því að verða fjórði í fyrsta móti. Aðeins fjórum mótum seinna vann hann sinn fyrsta mótssigur, í Monza á Ítalíu. Á endanum - og það þrátt fyrir að hafa keppt í aðeins hluta móta ársis - hafnaði hann á fyrsta ári í þriðja sæti í stigakeppni ökuþóra.

Regazzoni var liðsmaður Ferrari tvö ár til viðbótar en vegna þverrandi getu ítölsku bílanna skipti hann yfir til BRM árið 1973 og varð þá liðsfélagi Niki Lauda.

Skiptin voru til lítils og fekk Regazzoni aftur til liðs við Ferrari árið eftir ásamt Lauda. Nýr liðsstjóri Ferrari, Luca di Montezemolo, réði þá báða til sín 1974.

Af hálfu Ferrari var Lauda liðsforinginn en Regazzoni gaf honum ekkert eftir og varð að lokum í öðru sæti í stigakeppni ökuþóra 1974 á eftir Emerson Fittipaldi. Fór hann með sigur í þýska kappakstrinum.

Árið 1975 vann Regazzoni aftur ítalska kappaksturinn en átti annars erfitt uppdráttar það ár og einnig 1976, er hann þó vann kappaksturinn í Long Beach í Kaliforníu. Var hann því ekki endurráðinn í vertíðarlok og vék fyrir Carlos Reutemann.

Réði Regazzoni sig því til Ensign og síðar Shadow en hvort tveggja var skref afturábak fyrir hann. Og ferill hans virtist alveg vera að fjara út er Frank Williams réði hann til að keppa við hlið Alan Jones 1979.

Hann endurgalt traustið með því að vinna fyrsta sigur Williams og staðsetningin gat ekki verið betri, í Silverstone. Það dugði þó ekki til að Frank Williams héldi í hann lengur en út vertíðina.

Regazzoni sneri aftur til Ensign 1980 en varð fyrir því óhappi í bandaríska kappakstrinum í Long Beach að bremsurnar biluðu í bíl hans á beina upphafs- og lokakafla brautarinnar.

Afleiðingarnar urðu þær að bíllinn skall harkalega á steyptum vegg og hlaut Regazzoni mænuskaða sem batt enda á feril hans í formúlu eitt og batt hann við hjólastól.

Ökuþórinn var þó staðráðinn í að láta slysið ekki aftra sér frá þátttöku í akstursíþróttum. Á sérbúnum keppnisbíl tók hann þátt í rallinu mikla frá París til Dakar á níunda áratugnum. Í seinni tíð tók hann og þátt í ralli eldgamalla bíla og var álitsgjafi um formúluna í ítölsku sjónvarpi.

Regazzoni undir stýri árið 1996.
Regazzoni undir stýri árið 1996. ap
Frá slysstað en bíll Regazzoni mun hafa skollið beint framan …
Frá slysstað en bíll Regazzoni mun hafa skollið beint framan á vörubíl. ap
Regazzoni undir lok keppnisferilsins í formúlu-1.
Regazzoni undir lok keppnisferilsins í formúlu-1. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka