10 ökumenn með nýja vél

Tíu ökumenn verða með nýjar vélar í bílum sínum í kanadíska kappakstrinum og þarf enginn þeirra þó að sæta afturfærslu á rásmarki fyrir vikið.

Í þessum hópi eru báðir bílar Ferrari, sex sem knúnir eru Renaultvélum, þ.e. bílum Red Bull,  Renault og McLaren, og svo bílar Toro Rosso,sem brúka Hondavélar.

Daniel Ricciardo á Red Bull, Brendon Hartley og Pierre Gasly hjá Toro Rosso eru allir að taka í notkun sína þriðju vél á vertíðinni og fleiri geta þeir ekki notað á árinu nema gegn afturfærslu.

Ekki er skipt um vél með öllu nema í nokkrum bílanna. Þannig eru Max Verstappen og Kimi Räikkönen einungis að fá nýtt forþjöppusett, hið þriðja á árinu. Þeir fá ekki refsingu nema þeir þurfi á fjórðasettinu að halda á vertíðinni. Fimm aðrir ökumenn taka nú í notkun sitt annað forþjöppusett.

Engar breytingar hafa átt sér stað frá í síðasta móti í aflrás bíla sem knúnir eru vélum frá Mercedes og hið sama er að segja um bíla Haas og Sauber sem brúka Ferrarivélar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert