Vettel tekur forystu í titilslagnum

Sebastian Vettel á Ferrari var í þessu að  vinna kanadíska kappaksturinn í Montreal og það örugglega. Í leiðinni tók hann  forystuna í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna af Lewis Hamilton á Mercedes, sem varð fimmti.

Vettel var aldrei ógnað hringina 70 frá upphafi til enda, en næstur varð Vallteri Bottas á Mercedes og í þriðja sæti varð Max Verstappen á Red Bull en með því bætir hann fyrir klaufaskap í nokkrum undanförnum mótum.

Röð fremstu manna breyttist ekki neitt keppnina út í gegn ef undan er skilið framúrakstur Daniels Ricciardo fram úr Kimi Räikkönen. Ricciardo varð fjórði og Räikkönen sjötti.

Í sætum sjö til tíu - í þessari röð - urðu svo Renaultmennirnir Nico Hülkenberg og Carlos Sainz, Esteban Ocon á Force India og loks Charles Leclerc á Sauber, sem hirti síðasta  keppnisstigið sem í boði var.

Fyrir mót var Hamilton með 14 stiga forystu á Vettel, 110:96, en eftir keppni í Montreal er Vettel með einu stigi meira, 121:120. Eins skaust Bottas upp fyrir Ricciardo en milli þeirra er staðan 86:84 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert