Alonso keppir í Indy 500

Frenando Alonso ræðir við blaðamenn í Dakar 2020 rallinu, sem …
Frenando Alonso ræðir við blaðamenn í Dakar 2020 rallinu, sem fram fór í Saudi-Arabíu í ár. AFP

Fernando Alonso mun eftir allt keppa í hinum mikla Indy 500 kappakstri í Bandaríkjunum 24. maí og það með Arrow McLaren SP liðinu.

Alonso hefur tvisvar reynt fyrir sér í Indianapolis 500 kappakstrinum en eftir að hafa látið mjög að sér kveða aksturinn nánast út í gegn kom vélarbilun í veg fyrir sigur í hitteðfyrra. Í fyrra komst hann ekki inn í aðalkeppnina, féll úr leik í tímatökunni.

McLaren keppir á öllum mótum IndyCar mótaraðarinnar í Bandaríkjunum í ár en þar er um að ræða nokkurs konar systurkleppni formúlu-1. Ökumenn Arrow McLaren SP verða Patricio O'Ward og Oliver Askew en með Alonso innanborðs teflir liðið fram þremur bílum í Indy 500.

Fyrstu kynni hans af nýjum keppnisfák sínum verður á opnum æfingadögum í Indianapolis 30. apríl. „Ég er keppnismaður og Indy 500 er mesti kappakstur heims,“ hefur tímaritið  Autosport eftir Alonso. „Ég elska hina frábæru áhorfendur sem gera kappaksturinn svo sérstaka upplifun fyrir alla ökumennina. Þeirra vegna þráir maður að koma aftur til keppni. Eins og alltaf mun ég gefa allt í keppnina.“

Kappaksturinn í Indianapolis er sá eini af þremur mestu mótum heims sem hann hefur ekki unnið. Hin tvö eru Le Mans sólarhringskappaksturinn og heimsmeistarakeppnin í formúlu-1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert