Verður sæmdur riddaratign

Lewis Hamilton verður sleginn til riddara á næstunni.
Lewis Hamilton verður sleginn til riddara á næstunni. AFP

Formúlu-1-ökuþórinn Lewis Hamilton verður sæmdur riddaratign á næstu vikum og verður því sir Lewis Hamilton.

BBC greinir frá því að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi beitt sér fyrir því að Hamilton yrði sleginn til riddara.

Hamilton, sem er einungis 35 ára gamall, er sigursælasti formúlu-1-ökumaður frá upphafi en hann tryggði sér heimsmeistaratitilinn í keppninni um þar síðustu helgi þegar hann kom fyrstur í mark í Tyrklandskappakstrinum.

Þetta var fjórði heimsmeistaratitill Hamiltons í röð og hans sjöundi á ferlinum en aðeins Michael Schumacher státar af sjö heimsmeistaratitlum í formúlu-1.

Þá hefur enginn ökumaður í formúlu-1 unnið fleiri keppnir en Bretinn eða 94 alls og enginn hefur verið oftar á ráspól en Hamilton eða 97 sinnum.

Riddaranefnd Bretlandseyja hefur verið treg til að veita íþróttafólki sem er enn að keppa riddaratign en mun gera undantekningu í tilfelli Hamiltons.

Hann verður fjórði ökuþórinn úr formúlu-1 sem er sæmdur riddaratign en fyrir hafa þeir Jack Brabham, Jackie Steward og Stirling Moss allir verið slegnir til riddara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert