Benzema og Valbuena ekki valdir í landsliðið

Mathieu Valbuena, til vinstri, og Karim Benzema.
Mathieu Valbuena, til vinstri, og Karim Benzema. AFP

Karim Benzema, sem er miðpunkturinn í kynlífsmyndbands- og fjárkúgunarmáli, og Mathieu Valbuena, sem er fórnalambið, hefur verið hent út úr franska landsliðshópnum.

Didier Deschamps landsliðsþjálfari Frakka valdi í dag leikmannahópinn fyrir vináttuleikina á móti Englendingum og Þjóðverjum síðar í þessum mánuði og Benzema og Valbuena voru ekki valdir í hópinn.

Deschamps vildi ekki tjá sig um mál Benzema en hann hefur verið kærður fyrir að hafa reynt að kúga fé út úr Valbuena ásamt fleiri aðilum en þeir hafa í fórum sínum kynlífsmyndband af Valbuena sem þeir hótuðu að birta.

Landsliðsþjálfarinn sagði að Valbuena væri ekki góðu jafnvægi vegna umrædds mál og því hefði hann ekki verið valinn í hópinn og varðandi Benzema benti hann á að leikmaðurinn væri meiddur sem stendur og hafi ekki spilað með Real Madrid í síðustu leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert