„Munum ekki bregðast Benzema“

Karim Benzema var handtekinn fyrir þátt sinn í Valbuena-málinu.
Karim Benzema var handtekinn fyrir þátt sinn í Valbuena-málinu. AFP

Noel La Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins, styður við bakið á Karim Benzema, framherja Real Madrid og franska landsliðsins, en hann var í dag ákærður fyrir fjárkúgun á samherja sínum, Mathieu Valbuena.

Benzema var handtekinn í Versailles í gær en hann var þá grunaður um að eiga sinn þátt í að kúga fé út úr Valbuena sem leikur með Marseille. Hugmyndin var að dreifa kynlífsmyndbandi af Valbuena en Benzema var ákærður fyrir þátt sinn í málinu í dag.

Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, ákvað að velja Benzema ekki í hópinn fyrir komandi vináttuleiki en sömu sögu má segja um Valbuena. La Graet stendur þó fast við bakið á Benzema og heldur því fram að hann sé saklaus.

„Benzema er frábær persóna og fótboltamaður. Við munum ekki bregðast honum,“ sagði La Graet.

„Það er ekkert víst í þessu enn. Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem einhver er tekinn í gæsluvarðhald og svo hreinsaður af öllum ákærum daginn eftir. Við verðum bara að bíða rólegir eftir niðurstöðu í málinu,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert