Fellir kynlífsmyndskeiðið Benzema?

Karim Benzema
Karim Benzema AFP

Mun franski knattspyrnumaðurinn Karim Benzema spila fyrir land sitt á EM 2016 eða er ferill hans hjá franska landsliðinu á enda? Þetta er spurning sem margir franskir knattspyrnuáhugamenn velta fyrir sér þessa dagana og samkvæmt BBC telja flestir að ferlinum sé lokið. 

Einu sinni hefði þetta snúist um meiðsl eða verri frammistöðu eða átakanlegar persónulegar aðstæður - en nú er þetta Frakkland árið 2015 og það er allt annað í gangi en áður, hið ósæmilega getur eyðilagt ferilinn. 

Málið snýst um hvort Karim Benzema hafi tekið þátt í að kúga félaga sinn í franska landsliðinu, Mathieu Valbuena, vegna kynlífsmyndbands sem stolið var úr farsíma Valbuena. 

Karim Benzema við komuna á lögreglustöðina í Versölum 4. nóvember
Karim Benzema við komuna á lögreglustöðina í Versölum 4. nóvember AFP

Neitar en upptökur benda til annars

Benzema, sem er framherji hjá spænska liðinu Real Madrid, neitar því að hafa brotið af sér og segist aðeins hafa veitt félaga sínum, Mathieu Valbuena, ráðleggingar um hvað hann ætti að gera í þessum erfiðu aðstæðum. En rannsakendur trúa ekki orðum hans og telja að Karim Benzema hafi átt aðild að fjárkúgunartilrauninni. Það sem verra er - það er fyrir Benzema - er að afrit af símahlerunum hefur lekið út til fjölmiðla sem benda til þess að Benzema hafi ekki sagt allan sannleikann.

Það sem skiptir franska knattspyrnu hins vegar sennilega mestu máli er að allt bendir til þess að enn einn vandi blasi við franska landsliðinu sem er varla búið að jafna sig eftir atburðina í Suður-Afríku árið 2010. Það var þegar landsliðið fór í verkfall og neitaði að æfa undir stjórn landsliðsþjálfans. Liðið féll úr keppninni á HM það árið með skömm.

Mathieu Valbuena og Karim Benzema - ólíklegt er að þeir …
Mathieu Valbuena og Karim Benzema - ólíklegt er að þeir eigi eftir að standa saman og hlýða á franska þjóðsönginn fyrir leik franska landsliðsins, að minnsta kosti sem leikmenn AFP

Enn einu sinni hefur það komið upp að almenningur láti framkomu leikmanna fara í taugarnar á sér og telji að leikmenn hugsi meira um peninga en tryggð við fána landsins.

Hr. reddari stal kynlífsmyndskeiðinu

Allt byrjaði þetta með því að franski miðvörðurinn, Mathieu Valbuena, sem leikur með Olympique Lyonnais, komst að því að kynlífsmyndskeiði af sér og konu hefði verið hnuplað úr síma hans. Sá sem stal myndskeiðinu er Axel Angot, sem er lýst sem hr. reddara þegar ofur ríkir knattspyrnumenn lenda í vanda. Hann og tveir aðrir, Mustapha Z. of Younes H., eru taldir hafa reynt að kúga fé út úr Valbuena með myndskeiðið að vopni. En Valbuena neitaði að greiða og fór með málið til lögreglu sem hleraði síma þremenninganna í kjölfarið.

Þegar þarna var komið við sögu ákváðu þremenningarnir að fara aðra leið að Valbuena og fengu Karim Zenati, sem er félagi Karim Benzema frá gamalli tíð, en hefur verið dæmdur fyrir vopnað rán og eiturlyfjasölu, til þess að nýta sér vináttu við Benzema til að koma skilaboðum á milli til Mathieu Valbuena.

Mathieu Valbuena og Karim Benzema
Mathieu Valbuena og Karim Benzema AFP

Svo var það á æfingu með franska landsliðinu í Clairefontaine þann fimmta október að knattspyrnumennirnir tveir, Valbuena og Benzema, ræddu saman. Viðræður sem urðu kveikjan að málinu gegn Karim Benzema.

Hvað er þetta með húðflúrið?

Afrit af símaupptökum lögreglunnar, sem lekið var til útvarpsstöðvarinnar Europe 1, er frá 6. október þar sem þeir Karim Benzema og Karim Zenati ræða saman. Þar lýsir leikmaðurinn því sem þeim Mathieu Valbuena fór á milli daginn áður. 

„Ég sagði við hann: Ég ætla að greiða úr þessu fyrir þig. Þú munt fara og hitta manninn. Hann kemur og talar við þig. Ég heiti þér því að það verða ekki fleiri eintök,“ segir Benzema í símtalinu.

Karim Benzema segir síðan, samkvæmt Eurpoe 1, við Valbuena að hans hlutverki ljúki hér. Nú sé það í höndum vinar hans að taka við. Sá þekki þann sem er með myndskeiðið undir höndum. „Ég þekki hann ekki. Svo ef þú vilt ljúka þessu gefðu mér þá símanúmerið þitt. Ég kem því áfram og þú gengur frá þessu við hann.“

Síðar heyrist Karim Benzema segja við Karim Zenati: „Ég sagði (við Valbuena): Ef þú vilt að þessu myndskeiði verði eytt þá mun vinur minn koma að hitta þig í Lyon og þú gengur frá þessu með honum augliti til auglitis.“

Karim Benzema fær hér faðmlag frá Mathieu Valbuena
Karim Benzema fær hér faðmlag frá Mathieu Valbuena AFP

Karim Benzema lýsir því einnig í símtalinu þegar Mathieu Valbuena spyr hann hvort húðflúr hans sjáist í myndskeiðinu. „Ég sagði honum að það sæist allt.“ En síðar viðurkennir hann fyrir Karim Zenati að hann hafi ekki séð myndskeiðið sjálfur. 

Samkvæmt BBC er enn óljóst hvaða máli húðflúrið skiptir - hvort það sé á þeim líkamshluta sem yfirleitt er öðrum hulinn eða hvort Mathieu Valbuena óttist að það geti komið upp um að þetta sé hann á myndskeiðinu.

Samkvæmt frétt Europe 1 er tónninn í samræðum þeirra Benzema og Zenati eins og um hrekk sé að ræða en það sé í höndum dómstóla að ákveða hvort þetta séu gögn í fjárkúgunarmáli. 

Karim Benzema
Karim Benzema AFP

En þetta er ekki eina málið sem Karim Benzema er bendlaður við því hann er einn þeirra knattspyrnumanna sem taldir voru hafa greitt ólögráða vændiskonu fyrir kynlíf. Hann var sýknaður eftir að hafa upplýst að hann hefði ekki haft hugmynd um hversu ung hún væri að árum.

Gæti orðið ömurleg staða í búningsklefanum

En varðandi franska landsliðið þá óttast margir að það sé ekki bara Benzema sem missi sæti sitt í landsliðinu því margir telja að það sé ekki möguleiki á að landsliðsþjálfarinn Didier Deschamps útiloki Benzema en haldi Valbuena í liðinu. 

Eða líkt og einn franskur íþróttablaðamaður lýsir því við BBC:  „Andrúmsloftið í búningsklefanum verður hræðilegt - þar sem einhverjir leikmenn kenna Valbuena um að bera ábyrgð á brotthvarfi helsta markaskorara liðsins. Algjörlega ósanngjarnt í garð Valbuena sem er sá saklausi í öllu þessu en þetta er raunveruleikinn,“ segir Vincent Deluc, blaðamaður L'Equipef.

Karim Benzema
Karim Benzema AFP

Karim Benzema er 27 ára gamall, fæddur í Lyon en fjölskylda hans kemur frá Alsír. Hann á níu systkini. Hann gekk til liðs við Lyon níu ára að aldri og varð atvinnumaður í knattspyrnu 17 ára gamall árið 2005. 

Hann var keyptur til Real Madrid frá Olympique Lyonnais árið 2009 en tveimur árum fyrr lék hann sinn fyrsta landsleik fyrir hönd Frakklands. Hann hefur skorað 25 mörk fyrir landsliðið  og 93 mörk fyrir Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni.

Karim Benzema
Karim Benzema AFP
Karim Benzema
Karim Benzema AFP
Karim Benzema
Karim Benzema AFP
Karim Benzema
Karim Benzema AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert