Benzema viðurkennir sinn hlut

Karim Benzema sést hér hettuklæddur ganga út úr dómshúsi í …
Karim Benzema sést hér hettuklæddur ganga út úr dómshúsi í Versölum. AFP

Franski landsliðsmaðurinn Karim Benzema hefur viðurkennt að hafa tekið þátt í fjárkúgun á hendur liðsfélaga sínum í franska landsliðinu, Mathieu Valbuena, en vinur Benzema sagðist hafa yfir höndum kynlífsmyndband sem þeir hótuðu að birta á internetinu.

„Mér finnst þetta vandræðalegt,“ sagði Benzema en hann segir sig hafa verið að gera góðum vini sínum Karim Zenati greiða. Þeir nafnar voru að sögn Benzema mjög nánir vinir - jafnvel á meðan Zenati þessi var í fangelsi.

„Ég átti að vera milliliður fyrir samskipti þeirra Mathieu (Valbuena) og Karim Zenati," sagði Karim Benzema í yfirheyrslum lögreglunnar að því er fram kemur í frétt frönsku fréttaveitunnar AFP.

Benzema og Valbuena ræddu um myndbandið þegar franska landsliðið hittist og spilaði tvo æfingaleiki við Armeníu og Danmörku í síðasta mánuði. 

Meðal sönnunargagna lögreglunar í Frakklandi er samtal á milli Karim Benzema og Karim Zenati frá þeim tíma þar sem sá fyrrnefndi segir að Valbuena hefði ekki neitt val. Einnig á Benzema að hafa sagt við Valbuena að „maður gæti séð allt."

Vörn Benzema í málinu byggir hins vegar á eftirfarandi orðum Benzema:

„Ég skildi það þannig að Mathieu hefði sagt að hann ætlaði ekki að borga. Það var ekki mín ætlun að Zenati ætti að græða á þessu. Það var ekki mitt mál. Ég hugsaði ekkert um það. Ég er í raun og veru í áfalli yfir þessu. Ég lít heimskulega út í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert